24 -- Jól
H
elena Sverrisdóttir er fædd árið
1988 og er uppalin Haukakona og er
eina íslenska körfuboltakonan sem
spilar erlendis sem atvinnumaður.
Helena var aðeins 12 ára þegar hún
byrjaði að æfa með meistaraflokksliði
Hauka. Tveimur árum seinna var
hún yngsti leikmaðurinn sem valinn
hefur verið í A-landliðshóp á Íslandi
í hópíþrótt, aðeins 14 ára. Þess má
geta að Helena er fyrirliði íslenska
kvennalandsliðsins í dag.
Helena hefur þrisvar sinnum
verið valin besti leikmaður
Íslandsmótsins. Hún leiddi lið Hauka
til Íslandsmeistaratitla árið 2006 og
2007. Frá Haukum lá leiðin til Mekka
körfuboltans, Bandaríkjanna. Þar
stundaði hún háskólanám, nánar til
tekið í Texas Christian University þar
sem hún lék körfuknattleik samhliða
námi í fjögur ár á fullum skólastyrk.
Eftir fjögur farsæl ár ytra skrifaði
Helena undir atvinnumannasamning
hjá Good Angels Kosice í Slóvakíu,
þar sem liðið varð slóvenskur
meistari bæði árin hennar þar og
komst í undanúrslit EuroLeague
sem er sterkasta deild Evrópu. Eftir
tvö frábær tímabil hjá Good Angels
samdi hún við ungverska liðið DVTK
Miskolc nú í sumar.
En hvernig eru jól hjá atvinnumanni
í körfubolta? Við skyggndumst bak
við tjöldin hjá Helenu og fengum smá
innsýn í hennar jól.
1. Hvernig eru hefðbundin jól hjá
þér?
Ég kem heim til Íslands í jólafrí og
hef um viku áður en ég þarf að fara
aftur út. Ég reyni því að gera sem
mest með fjölskyldunni og hitta alla
vini og ættingja. Ég er svona þetta
typical jólabarn og finnst ekkert
skemmtilegra en stemmningin sem
fylgir jólunum. Mér finnst ótrúlega
gaman að gefa gjafir og vera í
afslöppun með fjölskyldunni. Mesta
spennan er fyrir aðfangadeginum
góða matnum og samverustund með
fjölskyldunni, síðan fer fjölskyldan
alltaf saman í göngutúr til ömmu á
jóladag.
2. Hvað er í matinn á aðfangadag?
Við byrjum á dýrindis-aspassúpu, og
borðum síðan vanalega kalkún, en
þar sem systir mín er svo matvönd
höfum við bætt hamborgarhrygg
við líka. Við erum síðan með ávaxta-
súkkulaðieftirrétt sem mamma
sér um. Pabbi eldar alltaf fyrir
fjölskylduna og stendur sig eins og
eðalkokkur.
3. Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Í fyrra gaf yngri bróðir minn mér
litla gjöf og skrifaði svo einlægt og
fallegt bréf með því að það bræddi
mig gjörsamlega. Mér þótti hundrað
sinnum vænna um það sem stóð í
bréfinu heldur en einhvern hlut sem
ég hef fengið í gjöf.
4. Hvað er efst á jólagjafalistanum
hjá þér í ár?
Það er í rauninni engin ákveðin gjöf,
mér finnst miklu skemmtilegra að
gefa góða gjöf. Litli bróðir og systir fá
oft að njóta góðs af því og ég þarf að
láta mér detta eitthvað sniðugt í hug
til að gefa þeim í ár. Annars kaupi ég
mér oftast einhverja græju í jólagjöf,
og finnst ekki ólíklegt að ég endurnýi
iphone-inn í ár.
5. Hvað er það sem umfram annað
myndar jólastemminguna hjá þér,
m.ö.o hvað er það sem segir þér
að jólin séu komin?
Þegar ég lendi heima á Íslandi í
kuldanum. Ég hef búið núna í
útlöndum í 7 ár og alltaf nema einu
sinni fengið jólafrí á Íslandi. Þannig að
þegar ég kem heim finnst mér eins
og jólin séu virkilega komin. Húsið
okkar er alltaf vel skreytt og þegar við
setjum upp tréð og pakkarnir komnir
undir þá kemur jólafiðringurinn með.
6. Hvað færðu langt jólafrí?
Í ár fæ ég að koma óvenju snemma
heim, eða 4 dögum fyrir jól. En missi
líklegast af áramótunum heima, en
ég fæ um 9 daga frí.
7. Hvað keyptir þú síðast í
Fríhöfninni?
Kaupi alltaf Elizabeth Arden honey
drops body lotion þegar ég er á
leiðinni út. Keypti líka tannbursta
og smá íslenskt, eins og harðfisk og
súkkulaðirúsinur.
íþrÓttaJÓl
helena sverrisdóttir
Mynd: www.wbasket.hu