background image
Snjallsímanotendur geta gert ýmislegt til að verja tækin sín gegn veirum
og tryggja að þau glatist ekki týnist síminn, hann skemmist eða sé honum
stolið. Ávallt ætti að verja símann með lykilorði og nota öpp sem taka
öryggisafrit af myndum eða öðrum mikilvægum gögnum sem geymd eru
á símanum. Eins er til ýmis þjónusta sem hjálpa notendum við að finna
týnda síma, læsa þeim eða hreinsa út öll gögn til að koma í veg fyrir að
þau lendi í röngum höndum.
Unga fólkið og öppin
Þegar stór hluti ungmenna er kominn með snjallsíma er ekki nema von
að margir foreldrar hafi áhyggjur af notkun þeirra á snjallsímaöppum.
Þótt vissulega séu til mörg nytsamleg og fróðleg öpp eru sum þeirra
engan veginn við hæfi ungs fólks. Þar að auki gætu börnin þurft að borga
fyrir sum öpp eða þjónustu innan appanna. Reglulega koma upp fréttir
af börnum sem steypa foreldrum sínum í skuldir með því að panta alls
kyns þjónustu í tölvuleikjum án þess að átta sig á því að um raunverulega
peninga sé að ræða.
Við viljum að sjálfsögðu að börnin okkar geti notið þeirra kosta sem
snjallsímarnir hafa upp á að bjóða. Um leið er mikilvægt að tryggja að
þau komist ekki í tæri við óviðeigandi efni, stofni til skulda eða deili of
miklum upplýsingum um sig til óviðkomandi. Til að hjálpa foreldrum
að koma í veg fyrir slíkt höfum við tekið saman nokkra punkta sem
nýtast þeim sem vilja auðvelda börnum og unglingum fyrstu skrefin í
snjallsímavæðingunni.
Taktu stjórnina
1. Skoðaðu öppin sem barnið þitt er með á snjallsímanum
sínum til að meta hvort þau hæfi þroska barnsins.
2. Skoðaðu aldurstakmörk og efnislýsingu þeirra appa sem
barnið er með á símanum, en prófaðu líka sjálft appið, því
það er ekki alltaf hægt að treysta lýsingunni.
3. Ræddu við barnið um kostnaðinn sem fylgir því að kaupa
öpp og settu reglur um slíkt, helst áður en fyrsti snjallsíminn
er keyptur. Ræddu hvernig barnið hyggist greiða fyrir öpp
og útskýrðu mögulegan aukakostnað sem getur falist í
gagnaniðurhali eða kaupum í gegnum appið.
4. Hafðu í huga að börn, sérstaklega þau yngstu, eiga e.t.v.
erfitt með að skilja að á bak við rafrænar greiðslur sem
notaðar eru við kaup í gegnum forrit séu raunverulegir
fjármunir.
5. Læstu app-versluninni með lykilorði í síma barnsins ef þú
vilt ekki að það kaupi öpp eða aðra stafræna þjónustu.
6. Læstu þínum eigin síma og spjaldtölvu með lykilorði og
hafðu einnig lykilorðavörn á app-versluninni til að hafa stjórn
á því hvenær barnið notar þín tæki og tryggja að það kaupi
ekki öpp eða þjónustu þegar það fær að leika í símanum eða
tölvunni.
7. Hvettu barnið til að velta fyrir sér hvaða persónulegu
upplýsingar öppin í símanum hafa um barnið og hvernig þær
séu mögulega notaðar.
8. Fylgstu með kaupum barnsins í app-versluninni með því
að fá allar kvittanir sendar á þitt netfang.
9. Kauptu gjafakort í app-versluninni fyrir síma barnsins
frekar en að leggja inn greiðslukortanúmerið þitt. Þannig veit
barnið hversu mikinn pening það hefur milli handanna.
10. Nýttu appið Vodafone Guardian til að stýra hvaða
snjallsímaöpp er leyfilegt að nota í síma barnsins.
vodafone
| Vetur 2013
11